Erlendis er algengt að farsælir forstjórar söðli um á miðjum ferli og hefji eigin fjárfestingarferli. Hér á Íslandi höfum við ekki mörg dæmi um slíkt og hefur uppgangur Róberts Wessmans vakið þeim mun meiri athygli. Eftir nokkrar árangursríkar sameiningar í upphafi aldarinnar sat hann allt í einu í forstjórastóli Actavis (sem þá hét reyndar Pharmaco) og rak harðskeytta uppkaupastefnu árin á eftir, sem skilaði félaginu í fremstu röð samheitalyfjafyrirtækja heims. Á þeirri leið voru hvorki fleiri né færri en 30 fyrirtæki yfirtekin.

Nú þegar hann hefur látið af störfum er Actavis með starfsemi í rúmlega 40 löndum, með um 11 þúsund starfsmenn. Vitaskuld hefur kastljósið í gegnum tíðina að talsverðu leyti verið á stjórnarformanni félagsins, Björgólfi Thor Björgólfssyni, en óhætt er að segja að Róbert hafi átt auðvelt með að ná athyglinni og almennt hefur verið litið til hans sem afar hæfileikaríks útrásarstjórnanda og var hann margverðlaunaður sem slíkur, meðal annars af Viðskiptablaðinu.

Stærsta yfirtakan

„Actavis er með skarpa kostnaðarvitund, afbragðs þjónustulund og mikinn eldmóð,“ sagði í skýrslu Merrill Lynch í upphafi síðasta árs og ljóst var að félagið naut mikillar athygli heima og erlendis. Actavis hafði verið óhrætt við að ráðast í stórar yfirtökur og jafnvel þrýst sér inn í ferlið sem aðrir töldu sér frátekið. Þar kom styrkur Róberts í ljós en hann þótti sýna ótrúlega einbeitni og hörku í yfirtökuviðræðum enda fáir íslenskir stjórnendur með meiri reynslu af slíku. En það sýndi sig líka að stjórnendur Actavis gátu hætt við, eins og kom í ljós með serbneska lyfjafyrirtækið Pliva, sem reyndist skynsamleg ráðstöfun.

______________________________________

Í úttekt helgarblaðs Viðskiptablaðsins er fjallað um Róbert Wessman, m.a. Salt Investments sem er fjárfestingafélag hans, skýrslu Harvard um fjárfestingar Róberts og framlag hans til Háskólans í Reykjavík. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .