Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn um fjárlagafrumvarp 2016 til fjárlaganefndar Alþingis. Ráðið fagnar hraðri niðurgreiðslu skulda en segir að hratt vaxandi útgjaldaaukning valdi áhyggjum.

Í umsögn Viðskiptaráðs er því fagnað að skuldir verði komið niður í um 50% af landsframleiðslu árið 2016 en það sé án þess að tekið sé að fullu tillit til jákvæðra áhrifa af væntanlegu uppgjöri fallinna fjármálastofnana. Vaxtagjöld ríkissjóðs voru 79 milljarðar árið 2014 og vaxtabyrðin sú þyngsta í Evópu, mælt sem hlutfall af landsframleiðslu. Ráðið bendir á að neikvæð áhrif opinberra skulda á lífskjör sé því umtalsverð.

Viðskiptaráð hefur áhyggjur af hröðum vexti í útgjöldum. Útgjaldaaukning ríkissjóðs nemur 27 milljörðum, eða um 4,9% hækkun milli ára. Rúmlega helmingur af þeirri hækkun má rekja til aukins launakostnaðar en aukin launakostnaður nemur um 15 milljörðum milli ára.

Þrátt fyrir mikla aukningu launakostnaðar í fjárlagafrumvarpinu þá er launakostnaður samt verulega vanáætlaður samkvæmt Viðskiptaráði. Ekki er gert ráð fyrir áhrifum nýjustu kjarasamninga eða úrskurðar gerðardóms. Viðskiptaráð bendir á að í athugasemdum við frumvarpið segi að séu þessi áhrif tekin með í reikninginn þá auki þau launakostnað um 16 milljarða. Fjárlagafrumvarpið muni með þessum aukna launakostnaði, að öðrum forsendum óbreyttum, skila halla sem nemur einum milljarði, en ekki afgangi up á 15 milljarða.

Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að auka aðhald í opinberum rekstri