Fyrirtækið Hrauney, sem er í eigu sex nemenda við Verzlunarskóla Íslands, var valið fyrirtæki ársins 2021 í fyrirtækajasmiðju Ungra frumkvöðla, Junior Achievement (JA) á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ungum frumkvöðlum.

Fyrirtækið Hrauney, sem að framleiðir reykelsisstanda úr íslensku hrauni, bar sigur úr bítum sem fyrirtæki ársins í fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla. Hrauney spratt upp úr frumkvöðlaáfanga við Verzlunarskóla Íslands og mun keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla sem fram fer í Vilnius í Litháen dagana 13. - 15. júlí. Keppnin fer fram í gegnum netið í annað sinn þar sem ekki er hægt halda keppnina á hefðbundinn hátt vegna faraldursins.

Ungir frumkvöðlar eru samtök sem leitast við að stuðla að aukinni nýsköpunar-, frumkvöðla- og viðskiptamenntun í skólum. Alls voru 126 fyrirtæki stofnuð í fyrirtækjasmiðjunni og skiluðu 124 þeirra sér í mark. Fyrirhugað var að halda vörumessu í apríl en aflýsa þurfti henni út af af faraldrinum. Hægt er að sjá þau fyrirtæki sem voru stofnuð í fyrirtækjasmiðjunni og vörur þeirra á vefsíðu vörumessunnar .

Stofnendur Hrauney eru þær Tinna Björg Ólafsdóttir, María Valgarðsdóttir, Anna Alexandra Petersen, Sara Ellertsdóttir, Laufey Jökulsdóttir og Sif Þórsdóttir.