Baugur Group hf. er í 51. sæti yfir 250 stærstu smásölufyrirtæki í heiminum samkvæmt samantekt Deloitte Touche og Stores, tímariti bandarísku samtaka smásölufyrirtækjanna NRF undir heitinu 2007 Global Powers of Retailing. Fyrsta sætið skipar að venju bandaríski smásölurisinn Wal-Mart Stores Inc. og franska fyrirtækið Carrefour S.A. er í öðru sæti þó að velta þess árið 2005 hafi verið meira en þrisvar sinni minni en sigurvegarans. Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka verslunar og þjónustu.

Í fréttabréfinu er bent á að Baugur Group hf. er algjör hástökkvari þegar kemur að þeim fyrirtækjum sem hafa vaxið hraðast á tímabilinu 2000-2005 og er í 1.sæti af þeim 50 hraðvöxnustu smásölufyrirtækjum sem nefnd eru til sögunnar með eins og áður sagði 106,2% árlegan vöxt á umræddu tímabili. Árlegur vöxtur þessara 50 fyrirtækja var 24,3% að meðaltali, sem er næstum þrisvar sinnum meiri en 8,4% vöxtur 250 stærstu smásölufyrirtækjanna að meðaltali. Ef aðeins er litið á 10 hraðvöxnustu fyrirtækin á umræddu 5 ára tímabili þá var meðaltalsársvöxtur þeirra 45,7%. Sala 10 stærstu smásölufyrirtækjanna jókst hinsvegar svipað og meðaltalsvöxtur 250 stærstu fyrirtækjanna.

Marks & Spencer Plc. í Bretlandi er í 47.sæti, en Mercadona.S.A. á Spáni og Coop Norden AB (sameinuð samvinnuverslun í Danmörku, Noregi og Svíþjóð) í 55. og 57.sæti tilsvarandi.

Velta Baugs Group hf. árið 2005 er áætluð 12.676 milljónir bandaríkjadala og 5 ára velta CAGR % (samanlagt árlegt vaxtarstig) í eigin landsmynt 106,2%.

Yfirtökur juku veltu margra hinna 50 hraðvöxnustu fyrirtækja og þar á meðal sigurvegarans Baugs Group hf. Það sem hins vegar vegur mest í örum og viðvarandi vexti þessara fyrirtækja er að þau skilja lykil-neytendamarkaði og laga starfsemi sína að þörfum þeirra.