Hrávörumarkaðir hafa ekki farið varhluta af miklum hækkunum á eignamörkuðum frá því að vextir voru lækkaðir og peningaprentun sett á fullt í fyrra til að bregðast við heimsfaraldrinum, og hafa verið afar líflegir frá síðasta hausti. Verð hefur hækkað gríðarlega á þeim flestum, með tilheyrandi áhrifum á birgðakeðjur fyrirtækja og verðlag.

Þrátt fyrir að nokkuð hafi borið á lækkunum nýverið er hrávöruverð enn almennt mjög hátt og margir markaðs- og greinigaraðilar telja þær enn eiga töluvert inni. Hrávöruverðsvísitala S&P hafði fyrr í vikunni hækkað um 13% á ársfjórðungnum sem lauk á fimmtudag.

Járngrýti hefur sjaldan verið dýrara, stálverð í Bandaríkjunum hefur þrefaldast og kol hafa ekki verið dýrari í 13 ár. Hrávöruvísitala Bloomberg hefur hækkað um 78% frá lágpunkti sínum í mars í fyrra, þrátt fyrir nýlegar lækkanir.

Kaupæði í kófinu
Í hátekjulöndum tekur iðnaðarframleiðsla og eftirspurn eftir iðnaðarvörum vanalega að víkja fyrir ýmiss konar þjónustu og öðrum óefnislegum gæðum. Það breyttist hins vegar á síðasta ári þegar samkomur og ferðalög voru meira og minna bönnuð, og í kjölfarið stórjókst eftirspurn Vesturlandabúa eftir allskyns vörum, sem jók eftirspurn eftir hrávörum.

Fjárfestar hafa ekki gefið hrávörumörkuðum mikinn gaum síðustu ár en það breyttist með hækkunum síðasta hausts. Á stórri árlegri ráðstefnu vogunarsjóðstjóra sem haldin var nú í júní voru hrávörumarkaðir teknir sérstaklega fyrir í fyrsta sinn í fimm ár.

Á meðan hrávörufjárfestar hafa grætt á tá og fingri hefur þróunin hins vegar vakið nokkurn óhug hjá seðlabönkum og almenningi. Verðbólga hefur farið vaxandi á Vesturlöndum eftir að hafa verið hófleg allt frá hruni. Á evrusvæðinu mælist hún 2% og er rétt yfir verðbólgumarkmiði, sú mesta í þrjú ár, og í Bandaríkjunum hefur hún rokið í 5%, en þar í landi hafa slíkar tölur ekki sést síðan 2008.

Við hrávöruverðshækkanirnar hafa svo í því tilliti bæst aukinn flutningskostnaður og fleira sem einnig tengist faraldrinum og hefur aukið kostnað við framleiðslu og afhendingu vara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .