Reuters fréttastofan fjallar í frétt sinni í dag um þróun verðs á hrávörum. Bent er á að verð á olíu og gulli hefur fylgt sveiflum Bandaríkjadollara undanfarið, en fjárfestar ættu ekki að búast við því að þau tengsl endist. Dollarinn hefur fallið um 5,6% frá áramótum og á sama tíma hefur olía hækkað í verði um 9,2% og gull um 6%. Lánsfjárkrísan sem nú stendur yfir hefur orðið til þess að fjárfestar taka fjármagn úr eignum á borð við hlutabréf og skuldabréf og snúa sér frekar að olíu og gulli samkvæmt frétt Reuters. Gullið sjá menn sem örugga höfn fyrir peninga sína á meðan olían heldur yfirleitt verðgildi sínu þegar aðrar eignir falla í verði.

Fáir hafa þó trú á að þessi tengsl milli olíuverðs og gengis dollara haldist lengi. Bráðlega mun olíuverð aftur ráðast af takmörkuðu framboði og mikilli eftirspurn, eins og áður, að mati Reuters. „Ég efast um að þessi þróun haldi áfram til langs tíma. Eðliseinkenni olíunnar eru of sterk. Á endanum mun olíuverð halda áfram að hækka. Ef dollarinn hækkar þá mun olía hækka minna, en það þýðir ekki að hún falli í verði,“ hefur Reuters eftir Mark Mathias, sjóðsstjóra Dawnay Day Quantum í London.

Öðru máli gegnir hins vegar um gull. Reuters hefur eftir viðmælanda sínum að það er sambærilegur valkostur að geyma fjármagn í gulli og í dollurum. Það gildi hins vegar ekki um olíu. Því fleiri fjárfestar sem líti á gull sem betri stað fyrir peningana sína, því veikari geti dollarinn orðið.