Hrefna Briem hefur hafið störf hjá Kerecis sem forstöðumaður breytingastjórnunar og skrifstofu forstjóra. Hún kemur til Kerecis frá Háskólanum í Reykjavík þar sem hún var ábyrg fyrir námsleiðum í viðskipta- og hagfræðinámi, ásamt því að hafa verið leiðandi í nýsköpun, kennt stjórnun og haft yfirumsjón með nýsköpunarnámskeiði skólans.

Hrefna starfaði jafnframt um árabil í fjármálageiranum. Hún er stjórnarmaður í Festu og á sæti í stjórn Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna. Hún er með B.S. og M.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands auk þess að hafa lokið AMP-gráðu fyrir stjórnendur frá IESE háskólanum í Barcelona.

Kerecis er frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum í lækningartilgangi. Vörur Kerecis eru m.a. notaðar til meðhöndlunar á sykursýkissárum, brunasárum, munnholssárum og til margskonar uppbyggingar á líkamsvef. Kerecis hefur vaxið ört á síðustu árum og eru starfsmenn fyrirtækisins nú um 300 á heimsvísu að því er kemur fram í fréttatilkynningu. .