Hrefna Karlsdóttir hefur verið ráðin til Ábyrgra fiskveiða ses. sem annast rekstur Iceland Responsible Fisheries vottunarverkefnisins. Hrefna mun sjá um að móta og reka verkefni um vottun ábyrgra fiskveiða og kynna íslenskan sjávarútveg og fiskveiðistjórnun. Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi .

Upprunamerkið fyrir íslenskar sjávarafurðir og vottun ábyrgra fiskveiða Íslendinga eru markaðstæki sem hafa síðan 2008 gefið framleiðendum og seljendum íslenskra sjávarafurða tækifæri til að staðfesta frumkvæði sitt í að mæta kröfum markaðarins um ábyrgar veiðar og fiskveiðistjórnun. Á undanförnum fjórum árum hafa veiðar á þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa fengið vottun ábyrgra fiskveiða.

Hrefna lauk doktorsgráðu í hagsögu frá Gautaborgarháskóla þar sem hún rannsakaði fiskveiðisamninga innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Hrefna starfaði hjá Hagstofu Íslands, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu við sjávarútvegsmál m.a. fiskveiðistjórnun innanlands og fiskveiðisamninga við erlend ríki en undanfarið eitt og hálft ár hefur hún starfað sem sérfræðingur á Veiðieftirlitssviði Fiskistofu. Hrefna er gift Einari Hreinssyni forstöðumanni kennslusviðs Háskólans í Reykjavík og saman eiga þau tvo syni.

Hrefna sat í stjórn Hafréttarstofnunar Háskóla Íslands í tvö ár og situr í stjórn Hestamannafélagsins Fáks.