Hreggnasi hefur látið töluvert til sín taka á laxveiðimarkaðnum undanfarnar vikur og mánuði. Í vikunni bárust fregnir af því að félagið hefði gert fimm ára leigusamning um veiðiréttinn í Laxá í Dölum. Þar áður hafði félagið samið um leigu á Brynjudalsá í Hvalfirði sem og Nessvæðinu í Laxá í Aðaldal hluta úr sumri. Auk þessara þriggja áa er Hreggnasi með Grímsá og Tunguá á leigu, Laxá í Kjós, Svalbarðsá, Korpu, Krossá á Skarðsströnd og Fossá í Þjórsárdal. Hreggnasi réð líka í haust Harald Eiríksson til starfa en hann er landsþekktur í veiðibransanum og hafði um árabil starfað sem sölustjóri hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur.

Eftir frábært veiðisumar, það fjórða besta í 40 ár, varð sprenging í fjölda útboða laxveiðiáa. Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri Hreggnasa, segir að félagið hafið gripið tækifærið.

„Það hefur verið rót á markaðnum og í því felast auðvitað tækifæri. Við höfum sérstaklega skoðað ár sem við þekkjum eða við teljum að bæti einhverju við okkar flóru. Haraldur kemur til dæmis inn með mikla þekkingu á Nessvæðinu og það lá vel fyrir okkur að taka það því á þessu landssvæði höfðum við bara verið með eina á, Svalbarðsá. Laxá í Dölum gefur okkur möguleika á að bjóða upp á á með færri stöngum en við erum til dæmis með í Grímsá og Laxá í Kjós þannig að við erum bara að bæta okkar þjónustu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .