Ísland stendur nú á svipuðum slóðum og árið 1989, að mati Hreggviðs Jónssonar, formanns Viðskiptaráðs, en hann lauk rétt í þessu ávarpi sínu á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs.

Hann segir að þá hafi ástandið í atvinnulífinu ekki bjart, en ári síðar tókst aðilum á vinnumarkaði auk stjórnvalda að búa til hina svokallaða Þjóðarsátt, sem hafi verið eitt merkilegasta afrek Íslandssögunnar. Núverandi ástand, sem m.a. einkennist af pólitsíkum deilum í stað sátta og samvinnu, hafi staðið of lengi.

Nefndi hann sérstaklega deilurnar um kvótakerfið í þvi sambandi. Sagði hann að sjávarútvegurinn væri ljósið í myrkrinu, grein sem skapaði mikil verðmæti með mikilli framleiðni. Ísland þurfi fleiri slíkar greinar og því sé óskiljanleg sú viðleitni stjórnvalda til að breyta kerfinu í grundvallaratriðum.

Hreggviður sagði að ekki hefði skort á hugmyndir um leiðir til bóta, því um 180 skýrslur hafi verið gefnar út frá hruni. Ein sú nýjasta sé skýrsla McKinsey fyrirtækisins, en á henni hefur Viðskiptaráð sett fram þrettán tillögur til aukinnar hagkvæmni í atvinnulífinu og hagkerfinu. Hann segir að skilaboð skýrslunnar séu skýr. Ísland sé að dragast aftur úr öðrum ríkjum, en tækifæri til úrbóta séu sannarlega ti lstaðar. Breyta þurfi áherslum til að skapa megi meiri verðmæti í hagkerfinu með minni tilkostnaði. Aðalatriðið sé að ná sem víðtækastri samstöðu allra aðila, stjórnvalda og einkageirans, til að auka verðmætasköpun og bæta lífskjör á Íslandi.