„Ég er bara að skoða þetta,“ segir Hreggviður Jónsson fjárfestir og formaður Viðskiptaráðs. Hann er í forsvari fyrir fjárfestingafélagið Veritas Capital. Í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að hann sé einn þeirra sem vinni að því með fjárfestingasjóðnum Stefni að kaupa Kaupás af Jóni Helga Guðmundssyni. Kaupás rekur meðal annars Krónuna og Nóatún.

Viðskiptablaðið greindi frá því í lok apríl að fjárfestingasjóðurinn SÍA II sem Stefnir rekur hyggist kaupa Kaupás. Morgunblaðið greinir frá því í dag að Stefnir muni fá til liðs við sig fjóra til sex fjárfesta.  Þá hefur Stefnir verið í viðræðum við lífeyrissjóðina um kaupin, samkvæmt upplýsingum VB.is.

Hreggviður segir að málið hafi verið kynnt fyrir sér eins og mörgum öðrum og hann sé að skoða hugsanleg kaup. „En það hafa engar ákvarðanir verið teknar,“ segir Hreggviður.