Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Mckinsey & Company hefur ákveðið að eigin frumkvæði og á eigin kostnað að ráðast í vinnu við mótun framtíðarstefnu fyrir Ísland. Þessi vinna hefst nú á vormánuðum og áætluð verklok eru um komandi áramót.

Hreggviður Jónsson, nýkjörinn formaður Viðskiptaráðs, kynnti þetta á Viðskiptaþingi fyrir skömmu.

Í máli sínu, sem jafnframt er lokaerindið á viðskiptaþingi í dag sem er að fjölsóttasta frá upphafi, fjallaði Hreggviður um mikilvægi áætlunar fyrir Ísland um verðmætasköpun og lífskjör. Hreggviður sagði m.a. að án viðvarandi hagvaxtar myndu lífskjör hér á landi dragast fljótt aftur úr þeim löndum sem búa við stöðugan hagvöxt og verðmætasköpun.

Í máli Hreggviðs kom fram að vinna Mckinsey mun einkum snúa að þremur þáttum. Í fyrsta lagi verður lagt mat á styrkleika landsins og helstu forsendur vaxtar í hagkerfinu, í öðru lagi verða helstu ógnanir sem standa endurreisn hagkerfisins fyrir þrifum kortlagðar og í þriðja lagi verða lagðar fram tillögur um framtíðaráherslur í atvinnulífinu til að tryggja verðmætasköpun og bætt lífskjör til framtíðar.

Í upphafi máls síns vék Hreggviður stuttlega að orðum Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, sem hafði fyrr í dag veitt námsstyrki Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi. Katrín gantaðist með það að hjól atvinnulífsins myndu vart snúast í dag þar sem svo margir úr atvinnulífinu hefðu tekið sér frí til að mæta á Viðskiptaþing. Hreggviður lagði það til að Alþingi tæki sér frí og að alþingismenn hefðu gott af því að sækja þingið.