Stjórnvöld hefðu átt að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort samningsskilyrði gætu orðið ásættanleg, einkum hvað varðar sjávarútveginn, að sögn Hreggviðs Jónssonar, formanns Viðskiptaráðs. Þegar hann lýsti afstöðu sinni og Viðskiptaráðs til aðildarviðræðna á Viðskiptaþingi í dag uppskar hann klapp frá gestum.

Hreggviður sagði óheppilegt að núverandi stjórnvöld telji hag Íslendinga betur borgið utan Evrópusambandsins og loka þar með á tvíhliða upptöku evru sem valkost í peningamálum. Viðskiptaráð er ekki sammála nálgun stjórnvalda í þessu máli, að mati Hreggviðs.

Hreggviður sagði það miður að stjórnvöld hafi ekki komið með skýrari svör um framtíðarstefnu sína í peningamálum í kjölfar þess að aðildarviðræður voru stöðvaðar.

„Sem fyrsta skref teldi ég það lágmark að stjórnvöld settu fram opinbert markmið um að Ísland ætli sér að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir lok kjörtímabilsins. Þá ákvörðun má taka alveg óháð framvindu í ESB-málum. Áskoranir Íslands í peningamálum þýða einungis eitt. Til að fyrirtæki sjái hag sínum best borgið hérlendis, þurfa aðrir þættir rekstrarumhverfisins að vera þeim mun hagfelldari. Meðan höft eru við lýði verður seint hægt að jafna leikinn, en markvissar aðgerðir á öðrum sviðum geta þó lagt grunn að bjartari framtíðarmynd en blasir við fyrirtækjum í alþjóðlegri starfsemi í dag“ sagði Hreggviður,