*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 15. október 2019 15:34

Hreggviður þarf ekki að víkja sæti

Ákæruvaldið taldi sérfróðan meðdómara vanhæfan til að dæma í markaðsmisnotkunar máli Glitnis vegna starfa fyrir slitastjórn.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Hreggviður Ingason, hagfræðingur og fjármálastarfsmaður, þarf ekki að víkja sæti sem sérfróður meðdómandi þegar markaðsmisnotkunarmál Glitnis verður flutt í Landsrétti. Þetta felst í dómi Hæstaréttar um málið sem staðfesti með því úrskurð Landsréttar.

Dómur héraðsdóms í málinu var kveðinn upp í mars í fyrra. Þar voru Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri, og Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, fundir sekir um markaðsmisnotkun. Lárusi var ekki gerð refsing þar sem hann hafði fyllt refsihámark vegna sambærilegra brota. Jóhannes var á móti dæmdur í eins árs fangelsi.

Jónas Guðmundsson, Valgarð Már Valgarðsson og Pétur Jónasson, fyrrverandi starfsmenn eigin viðskipta, hlutu skilorðsbundna dóma. Jónas hlaut tólf mánaða dóm, Valgarð níu og Pétur sex mánuði. Jóhannes og Pétur áfrýjuðu dómi héraðsdóms fyrir sitt leyti en aðrir una sínum dómum.

Í september upplýsti Landsréttur að dómurinn hefði í hyggju að kveða fyrrnefndan Hreggvið til setu í dóminum. Ákæruvaldið gerði athugasemd við það fyrirkomulag þar sem á árunum 2010-15 hefði hann starfað sem forstöðumaður afleiðusafns Glitnis en við það starf hafi hann unnið náið með lögfræðingum við rekstur innlendra og erlendra mála. Verjendur ákærðu gerðu ekki athugasemd við setu hans í dóminum.

„Fyrir liggur að Hreggviður starfaði hvorki með ákærðu í máli þessu né fyrir bankann á þeim tíma sem þau brot sem ákært er fyrir í þessu máli eiga að hafa átt sér stað. Þá hætti hann störfum fyrir slitastjórn [Glitnis] á fyrri hluta árs 2016, hefur enga aðkomu haft að því máli sem hér er til umfjöllunar og hefur engin hagsmunatengsl við aðila málsins. Störf hans fyrir slitastjórn A valda því ekki vanhæfi hans,“ segir í úrskurði Landsréttar.

Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að ekkert í gögnum málsins benti til þess að Hreggviður hefði komið að rannsókn á ætluðum brotum innan bankans. Þá starfaði hann ekki hjá bankanum þegar hin meintu brot eiga að hafa verið framin. Það eitt að hann hafi starfað hjá slitastjórn Glitnis gæti ekki valdið því að hann teldist vanhæfur í málinu. Úrskurðurinn var því staðfestur.