Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings sem nú er í haldi lögreglu vegna rannsóknar embættis sérstaks saksóknara, flutti lögheimili sitt til Lúxemborgar 13. ágúst 2009. Þar býr fjölskylda hans nú.

Hins vegar kom hann sjálfviljugur til landsins seint í gærkvöldi frá London til að fara í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í morgun. Í kjölfarið var hann handtekinn.

Í Lúxemborg hefur Hreiðar rekið ráðgjafafyrirtækið Consolium ásamt Ingólfi Helgasyni fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingrími P. Kárasyni, sem var framkvæmdastjóri áhættustýringar. Allir eru þeir með lögheimili í Lúxemborg. Guðný Arna Sveinsdóttir, áður fjármálastjóri Kaupþings, og Guðmundur Þ. Gunnarsson, sem var á fyrirtækjasviðinu, starfa fyrir Consolium á Íslandi.

Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku var skrásett hvar helstu leikendur á íslenskum fjármálamarkaði eru nú búsettir. Í ljós kom að margir þeirra eru fluttir til London og nokkrir til Lúxemborgar. Í einhverjum tilvikum eru menn að sinna verkefnum þar ytra eða eiga erfitt með að þola návígið á Íslandi í ljósi aðstæðna og viðhorfs fólks. Þeir segjast vera að vernda fjölskyldu sína. Í einhverjum tilvikum kann að vera hagkvæmara að búa ytra með tilliti til skatta.

Virkir framsalssamningar milli Evrópuríkja

Þetta hefur vakið upp spurningar um hver staða íslenskra rannsóknaryfirvalda er þegar það þarf að taka skýrslu af fólki eða jafnvel handtaka. Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku kom fram að nú gilda að mörgu leyti lík lög í flestum Evrópuríkjum. Ef ákveðnir einstaklingar eru kallaðir til yfirheyrslu og þeir hunsa þá beiðni, nú eða um handtöku er að ræða, eru virkir framsalssamningar á milli ríkja.

Þá er hægt að fullnusta dómum á milli EES-ríkja komi til þess að menn búi í öðru landi en dómurinn fellur.