Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, kom til landsins með flugvél Icelandair frá London seint í gærkvöldi.

Hann var í morgun boðaður í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara. Í kjölfarið var Hreiðar handtekinn og óskað eftir tveggja vikna gæsluvarðhaldi yfir honum. Dómari tók sér lögbundinn frest til að úrskurða í málinu.

Þá hefur komið fram í fjölmiðlum að Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþing Lúxemborg og núverandi stjórnandi Banque Havilland, hefur einnig verið handtekinn. Búist var við að óskað yrði eftir gæsluvarðhaldi yfir honum líka.

Á mbl.is í kvöld kom fram að Hreiðar hefði farið aftur í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í kvöld sem lauk á níunda tímanum. Þá var hann, samkvæmt frétt mbl.is, fluttur aftur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Hreiðar Már var ekki í járnum en í fylgd lögreglumanna.