Ef Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson myndu selja hlutina sem þeir keyptu í Kaupþingi í gær núna myndu þeir hagnast um rúmlega 330 milljónir króna hvor.

Eins og fjallað var um í gær keyptu þeir Hreiðar Már, forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, 812.000 hluti í bankanum hvor á genginu 303 kr. á hlut í gær og nýttu sér þar með hluta kaupréttar síns. Alls kostuðu 812.000 hlutir því rúmlega 246 milljónir.

Gengi Kaupþings er nú 710 kr. á hlut samkvæmt Markaðsvakt Mentís og eru 812.000 hlutir því metnir á um 576,5 milljónir.

Báðir eiga þeir kauprétt á 2.436.000 hlutum í bankanum til viðbótar. Ef þeir myndu nýta þann kauprétt í dag og selja bréfin strax aftur myndu þeir hagnast um rúmlega 990 milljónir hvor.