Kaupþing hefði átt að flytja stærsta hluti starfsemi sinnar úr landi árið 2006.

Þetta sagði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Kastljósi RÚV í kvöld.

Hreiðar sagði að á stjórnarfundi Kaupþings í lok september hefði verið ákveðið að færa alla starfsemi bankans erlendis undir erlend dótturfélög. Þannig stóð til að færa alla starfssemi bankans á Norðurlöndum undir FIH bankann í Danmörku og alla starfsemina á meginlandi Evrópu og í Bretlandi undir dótturfélag bankans í Bretlandi.

Á Íslandi átti einungis að vera íslenska starfsemi bankans.

Til stóð að kynna þetta í lok október á síðasta ári en af augljósum ástæðum tókst það ekki.

Hreiðar sagði að bankinn hefði átt að framkvæma þetta árið 2006, það væru stærstu mistök í starfsemi bankans.