Með útrásinni hefur Kaupþing dreift áhættu sinni þar sem bankinn starfar nú á stærra markaðssvæði en áður. Markaðssvæði Kaupþings nær nú til 160 milljóna manna en verður í lok árs 380 milljónir manna.

Þetta sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, í ræðu á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York fyrir stundu.

Hann benti á að Kaupþing hefði verið með best reknu bönkum í Evrópu síðastliðin tvö ár og að eigin fjárstaða bankans væri mjög góð.

Nýir viðskiptavinir Kaupthing Edge á hverjum degi

Þá sagði Hreiðar Már að nýir viðskiptavinir bættust við Kaupthing Edge bankanna á Bretlandi á hverjum degi. Hann sagði að lækkun Moody‘s á lánshæfismati bankans hafði engin áhrif haft á starfssemi hans heldur væri hann þvert á móti að styrkjast á hverjum degi.

Hreiðar Már sagði skuldatryggingarálag bankanna gefa ranga mynd af stöðu þeirra. Hann sagði að Kaupþing hefði nýlega reynt að kaupa bæði ríkisskuldabréf og eins Kaupþingsbréf á sömu kjörum og skuldatryggingarálagið gæfi til kynna. Bréfin hefðu hins vegar ekki verið fáanleg á þeim kjörum sem sýni að álagið gefi ranga mynd af raunverulegri stöðu bankans.