Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings mun áfrýja dómi í Marple-málinu svokallaða til Hæstaréttar. Þetta kemur fram í frétt Mbl.is . Í samtali við Mbl segir Hörður Felix Harðarson verjandi Hreiðars: „Það er alveg ljóst að þessum dómi verður áfrýjað enda teljum við efnislega niðurstöðu dómsins í öllum atriðum ranga.“

Héraðsdómur Reykjavíkur þyngdi í gær dóm yfir Hreiðari Má Sigurðssyni í Marple-málinu eftir að málið var tekið fyrir í annað sinn. Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá október 2015 í Marple-málinu vegna vanhæfi sérhæfðs meðdómara í málinu, Ásgeirs Brynjars Torfason lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í kjölfarið þurfti að taka aðalmeðferð málsins á ný fyrir héraðsdómi.

Hreiðar var í gær dæmdur í 12 mánaða fangelsi eftir að hafa fengið 6 mánaða dóm í fyrra skiptið. Segir Hörður Felix að refsiákvörðunin sé hreint út sagt óskiljanleg. „Við fyrri meðferð málsins fyrir rétt um tveimur árum síðan taldi dómurinn hæfilegt að dæma umbjóðanda minn til sex mánaða fangelsisrefsingar en með því var refsingin færð í sex ár sem er hámarkið samkvæmt umræddum lagaákvæðum. Við þá ákvörðun var tekið tillit til tveggja annarra dóma sem þá höfðu fallið,“ segir Hörður

Bætir hann því við að nú þegar málið er endurflutt sé það hins vegar mat dómsins að hæfilega refsing sé 12 mánuðir og refsing færð í sjö ár. Bendir Hörður á að meirihluta dómsins hafi sömu dómarar skipað og áður. Segir hann að það eina sem hafi gerst í millitíðinni sé málsmeðferðartíminn hafi lengst um tvö ár þar sem fyrri meðferð málsins var ólögmæt og því ómerkt af Hæstarétti.