Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann segir að engin lánaskjöl hafi verið undirrituð þegar Kaupþing fékk 500 milljóna evra lán frá Seðlabankanum þann 6. október 2008. Seðlabankinn hafi einfaldlega millifært fjárhæðina til Kaupþings eftir samtal um hana milli hans og Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans.

Hreiðar segir að það hafi svo ekki verið fyrr en á næstu dögum á eftir að Seðlabankinn fór fram á það við Kaupþing að bankinn gengi frá lánaskjölum og veðsetningu FIH bankans vegna lánveitingarinnar. Það hafi stjórnendur Kaupþings að sjálfsögðu gert eins og um hefði verið rætt.

Jafnframt segir Hreiðar í grein sinni að ekkert af fjármagninu sem Kaupþing fékk frá Seðlabankanum hafi verið notað til kaupa á eigin skuldabréfum bankans eins og haldið hafi verið fram. Allt féð hafi verið notað til að tryggja rekstur og hag Kaupþings og viðskiptavina bankans.

Neyðarlögin kipptu fótunum undan Kaupþingi

Hreiðar segir einnig að stjórnendur bankans hafi talið fyrirgreiðsluna frá Seðlabankanum nægilega stóra til að bankinn gæti staðið af sér storminn sem geisaði á fjármálamörkuðum á þeim tíma. Þeir hafi hins vegar ekki vitað að ríkisstjórn Íslands myndi síðar sama dag og lánveitingin var veitt beita sér fyrir samþykkt neyðarlaga á Alþingi.

Segir Hreiðar að neyðarlögin, sem settu innistæðueigendur fram fyrir aðra kröfuhafa, hefðu kippt fótunum endanlega undan rekstri alþjóðlegra banka á Íslandi. Eftir að þau hafi verið samþykkt sé óumdeilt að ekki hafi verið raunhæft að reka alþjóðlegan banka, sem sótti fjármögnun sína til alþjóðlegra markaða, á Íslandi.