Vegna þess að Hreiðar Már Sigurðsson var með hlutabréfaeign sína í einkahlutafélagi, ólíkt flestum stjórnendum bankans, gat hann hagnast á kaupréttum sínum nánast um leið og hann nýtti þá, að því er kemur fram í ákæru sérstaks saksóknara í Kaupþingsmálinu.

Þar segir að þamm 6. ágúst 2008 hafi Hreiðar Már nýtt árlegan kauprétt frá árinu 2004 á 812.000 hlutum á genginu 303 krónur á hlut og nam kaupverðið því 246,8 milljónum króna með þóknun. Um leið og viðskiptin höfðu gengið í gegn seldi Hreiðar Már þessi hlutabréf til félags í hans eigu, Hreiðar Már Sigurðsson ehf. Kaupþing fjármagnaði kaupin að fullu en félagið keypti hlutabréfin af Hreiðari á genginu 704. Kaupverðið nam því 571,6 milljónum króna og hagnaður Hreiðars Más var því 324,9 milljónir króna.