Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, neituðu bæði sök við þingfestingu máls sem höfðað var gegn þeim fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu . Eins og áður hefur komið fram þá eru þau ákærð fyrir umboðs- og innherjasvik.

Ákæran um innhverjasvik er gerð á grundvelli annars máls þar sem Hreiðar Már var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun í fyrra. Hreiðar sé sakaður um að hafa grætt yfir 300 milljónir á viðskiptum með hlutafé í Kaupþingi árið 2008.

Hreiðar Már er sagður hafa búið yfir upplýsingum um að skráð markaðsverð hlutabréfa í Kaupþingi gæfu ranga mynd af verðmæti þeirra vegna markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum sem Hreiðar tók sjálfur þátt í.

Í Fréttablaðinu kemur einnig fram að Guðný Arna sé ákærð fyrir hlutdeild í meintum umboðssvikum Hreiðars. Hún er jafnframt sökuð um að hafa veitt honum liðsinni við að koma þeim fram, með fyrirmælum og samskiptum við lægra setta starfsmenn.