„Ég tók aldrei ákvörðun gegn hagsmunum Kaupþings og er því saklaus,“ sagði Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, við þingfestingu máls embættis sérstaks saksóknara gegn þremur fyrrverandi lykilstjórnendum Kaupþings. Málið snýst um lánveitingar til valdra viðskiptavina Kaupþings upp á tugi milljarða króna og kaupa þeirra á afleiðum tengdum skuldatryggingum á Kaupþing (e. Credit Linked Notes) í ágúst og september árið 2008. Skuldatryggingarálag Kaupþings stóð um þetta leyti í hæstu hæðum eða um og yfir 1.000 stigum. Fjallað er um málið í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í þeim hluta hennar sem fjallar Kaupþing sem millilið við sölu á skuldatryggingum á sjálfan sig. Bæði í skýrslunni og ákærunni segir að Deutsche Bank hafi teiknað viðskiptin upp. Í ákæru kemur fram að lánin hafi verið í evrum þegar bankinn glímdi við lausafjárþurrð í erlendri mynt.

Hreiðar Már var einn sakborninga sem mætti við þingfestingu málsins í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, sem var bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, sem sömuleiðis eru ákærðir mættu hins vegar ekki.

Kærðir fyrir umboðssvik

Fram kemur í ákæru í málinu að þeir Hreiðar Már og Sigurður eru ákærðir fyrir fyrir umboðssvik og fyrir að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína, stefnt fé bankans í hættu og farið út fyrir heimildir þegar þeir lánuðu vildarviðskipavinum bankans tugi milljarða til að fjárfesta í skuldatryggingum á bankann. Magnús er ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um lánveitingarnar.