Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, furðar sig á að sérstakur saksóknari hafi ekki ákært tiltekna undirmenn hans fyrir löglaust uppgjör á þrettán milljarða sjálfsábyrgð sjeiks Al Thani. Slitastjórn Kaupþings telur ábyrgðina ógreidda og hefur stefnt sjeiknum til að greiða hana.

Þetta kom fram á vef Vísis seint í gærkvöldi en þar er vitnað í greinargerð Hreiðars Más sem lögð hefur verið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna ákæru í Al Thani-málinu svokallaða. Í greinargerðinni ber lögmaður Hreiðars sakir af honum en lýsir jafnframt furðu á því að ekki hafi verið ákært fyrir þetta uppgjör, sem Hreiðar hafi hvergi komið nærri.

Þá kemur fram að Hreiðar Már telur undirmenn sína hafa framið refsivert lögbrot 8. október 2008, sama dag og Kaupþing féll. Þá var sjeik Mohammed bin Khalifa Al Thani leyft að gera upp 12,8 milljarða króna sjálfskuldarábyrgð vegna kaupa sinna í bankanum með því að skipta 50 milljón dollurum í krónur á langtum hærra gengi en öðrum bauðst. Dollarana hafði hann fengið að láni frá Kaupþingi.

Sérstakur saksóknari ákærði Hreiðar í febrúar fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun vegna lánveitinga til Al Thani og Ólafs Ólafssonar, eins stærsta eiganda Kaupþings á þeim tíma, samtals að andvirði tæpra þrjátíu milljarða. Af því notaði sjeikinn tæpa 26 milljarða til að kaupa rúm fimm prósent í bankanum eftir miðjan september 2008. Með Hreiðari eru ákærðir Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson.

Sjá nánar á Vísir.is