„Ég er sáttur. Það er mikilvægt fyrir okkur í ljósi sögunnar og þeirra sögusagna sem voru í gangi að fá það skjalfest að við brutum hvorki lög né reglur í starfsemi Kaupthing Singer & Friedlander. Það kemur einmitt skýrt fram í niðurstöðum rannsóknarinnar,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings-samstæðunnar.

Eins og greint var frá í morgun birti breska fjármálaeftirlitið (FSA) niðurstöður rannsóknar sinnar á falli Kaupthing Singer & Friedlander (KSF), banka Kaupþings í Bretlandi. Í niðurstöðunum segir m.a. að fyrrverandi stjórnendur bankans úti og hér hafi ekki hugað nægilega vel að lausafjárstöðu bankans og láðst að láta breska fjármálaeftirlitið vita af því að það hefði ekki lengur aðgang að lánalínu frá Kaupþingi upp á einn milljarð punda hér á landi í október árið 2008. FSA segir stjórnendurna, Hreiðar Má, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, og Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóra KSF, hvorki hafa brotið lög né reglur. Þeim er hins vegar ekki heimilt að stjórna eftirlitsskyldu fjármálafyrirtæki í Bretlandi í fimm ár frá bankahruninu. Bannið rennur út í október á næsta ári.

Hreiðar segir í samtali við netútgáfu Viðskiptablaðsins þá Sigurð og Ármann auk hans sjálfs, hafa samþykkt það sem hann kallar sátt við breska fjármálaeftirlitið, þ.e.a.s. bannið sem nefnt er hér að ofan.

Mistök hjá Bretum að taka KSF yfir

Hreiðar Már gagnrýnir hins vegar aðgerðir breskra fjármálayfirvalda, sem hafi tekið yfir KSF í stað þess að veita bankanum lán í formi lausafjár í gegnum breska seðlabankann líkt og breskum bönkum og fjármálafyrirtækjum var veitt í hruninu í október fyrir að verða fjórum árum. Í stað þess hafi bankinn verið tekinn yfir og hann keyrður í þrot. Þetta sé eina fyrirtækið sem honum er kunnugt um sem tók við innlánum í Bretlandi en fékk þessa meðhöndlun.

„Ég held að þetta hafi verið mistök hjá Bretunum. Ef bankinn hefði verið látinn starfa áfram þá hefði getað komið kaupandi að honum,“ segir hann og bætir við að sú leið hafi verið farin á Norðurlöndunum og hafi hún gengið vel. Hann segir rannsókn breska fjármálaeftirlitsins, sem var mjög viðamikil, ekki hafa verið tilraun stofnunarinnar til að breiða yfir eigin mistök við yfirtökuna.

Hér má sjá niðurstöðu FSA