Hreiðar Þór Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður á markaðssviði Vífilfells. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Hreiðar Þór hefur starfað hjá Vífilfelli frá árinu 2007, fyrst sem vörumerkjastjóri og síðar sem sölu- og markaðsstjóri áfengis og loks markaðsstjóri bjórs og heitra drykkja. Hreiðar Þór hefur þegar hafið störf sem forstöðumaður en hann tók við af Mário Frade sem lét af því starfi í byrjun júlímánaðar.

Áður en Hreiðar Þór hóf störf hjá Vífilfelli starfaði hann hjá Símanum, TrackWell og Eimskipafélagi Íslands. Hann útskrifaðist með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2000.

„Ég er afskaplega spenntur að taka við nýju starfi innan Vífilfells. Ég hef starfað hjá fyrirtækinu í rúm 8 ár og þekki starfsemina því vel. Það er draumur hvers markaðsmanns að vinna með svo mörg sterk vörumerki sem Vífilfell hefur yfir að ráða, bæði íslensk og erlend. Einnig hefur verið gefandi að taka þátt í uppbyggingu nýrra bjór-vörumerkja og sjá góðan árangur af því starfi. Ísland er í dag umsvifamikill útflytjandi á bjór og hér blómstrar að mínu mati afar heilbrigð bjórmenning. Ég hlakka mjög til að halda áfram að þróa og móta markaðsstarf Vífilfells í samstarfi við það frábæra fólk sem hér vinnur,“ segir Hreiðar Þór.