*

fimmtudagur, 27. febrúar 2020
Innlent 11. apríl 2019 09:24

Hrein eign Íslendinga 123 milljarðar

Heildarfjáreignir innlendra aðila eru áætlaðar 26.543 milljarðar króna sem er 4% af VLF umfram heildarskuldbindingar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Áætlað er að heildarfjáreignir innlendra aðila hafi numið 26.543 milljarða króna við árslok 2017, eða rúmum 1.014% af vergri landsframleiðslu.

Heildarskuldbindingar námu 26.426 milljörðum króna, eða 1.010% af VLF að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Munurinn þarna á milli, sem kalla mætti hreina eign innlendra aðila, nemur 123 milljörðum króna.

Fjáreignir heimilanna stóðu í rúmlega 6.909 milljörðum króna og fjárskuldir í 2.014 milljörðum króna í lok árs 2017, samsvarandi 264% og 77% af VLF.

Heildarfjáreignir fyrirtækja, annarra en fjármálafyrirtækja, námu um 4.458 milljörðum króna samkvæmt uppfærðum tölum, en fjárskuldir stóðu í 7.656 milljörðum króna. Er mismunurinn þarna á milli neikvæður um 3.198 milljarða króna.

Fjáreignir fjármálafyrirtækja námu um 13.423 milljörðum króna í lok árs 2017 en fjárskuldbindingar voru 14.465 milljarðar króna. Mismunurinn þar á milli er neikvæður um 1.042 milljarða króna.

Í lok árs 2017 námu fjáreignir hins opinbera 1.656 milljörðum króna, eða sem nemur 63,3% af VLF og skuldir 2.283 milljörðum króna, eða 87% af VLF. Þar er neikvæður mismunur sem nemur 627 milljörðum króna.

Fjármálaeignir erlendra aðila stóðu í 3.297 milljörðum króna eða 126% af VLF í árslok 2017 og skuldbindingar í 3.406 milljörðum króna, eða 130% af VLF. Þarna á milli munar 109 milljörðum króna, skuldbindingar umfram fjáreignir.