Hrein eign til greiðslu lífeyris íslenskra lífeyrissjóða nam 900 milljörðum íslenskra króna í lok júlí og hefur aukist um 22% milli ára. Á þessum tíma hefur eignasamsetning þeirra tekið töluverðum breytingum. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að mesta breytingin er í innlendum skuldabréfum. Um mitt síðasta ári var hlutfall innlendra skuldabréfa 49% af hreinni eign lífeyrissjóðanna en í lok júlí í ár var hlutfallið komið niður í 44%.

Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi verið nettóseljendur á innlendum hlutabréfamarkaði hefur hlutfall innlendra hlutabréfa/sjóða aukist úr því að vera 11% í 13%. Hér skiptir auðvitað mestu að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað um 100% á síðastliðnu ári.

Lífeyrissjóðirnir hafa mikið vera að fjárfesta í erlendum hlutabréfum/sjóðum síðastliðið ár og því kemur ekki á ávart að hlutfall erlendra hlutabréfa hefur aukist úr því að vera 14% um mitt síðasta ári í 18% á þessu ári. Þrátt fyrir að um litlar fjárhæðir sé að ræða í samanburði við aðrar fjárfestingar sjóðanna vekur það athygli að hlutfall erlendra skuldabréfa hefur verið að aukast á síðastliðnu ári og er nú að nálgast 1% af heildarsafni sjóðanna. Það hefur verið á stefnuskrá stærstu lífeyrissjóðanna að auka hlut sinn í erlendum skuldabréfum en þar sem innlend skuldabréf hafa verið að gefa mun betri ávöxtun hafa fjárfestingarnar verið með minnsta móti. Þegar erlendir verðbréfasjóðir eru meðtaldir hefur hlutfall erlendra verðbréfa aukist úr 16% í 21% á einu ári en eins og fram hefur komið má fyrst og fremst rekja það til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum/sjóðum.