Hrein eign lífeyrissjóða í lok september nam 1.416 milljörðum króna sem er um 32 milljarða króna aukning milli mánaða, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Frá ársbyrjun hefur hrein eign lífeyrissjóða aukist um 196 milljarða króna, þar af hafa eignir lífeyrissjóða í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum aukist um 103 milljarða króna.

Eignir lífeyrissjóða í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum námu í lok september um 493 milljarða króna eða sem nemur 35% af heildareignum lífeyrissjóðanna en samkvæmt lögum má hlutabréfaeign lífeyrissjóða ekki fara yfir 60% af heildareignum þeirra,? segir greiningardeildin.

?Staða lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum hefur hækkað umtalsvert frá áramótum, eða um rúmlega 88 milljarða króna en þessa hækkun má líklega að einhverju leyti rekja til gengisveikingar krónunnar á tímabilinu. Vægi erlendra verðbréfa er í dag um 27% af heildareignum lífeyrissjóða samanborið við 24% í árslok 2005,? segir greiningardeildin.