Ætla má að hrein eign lífeyrissjóðanna um síðustu áramót hafi verið um 137% af vergri landsframleiðslu ársins 2012. Þetta er hæsta hlutfall sem nokkurn tíma hefur mælst, að því er segir í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Stærð sjóðanna miðað við landsframleiðslu var svipuð í lok ársins 2011 og í lok ársins 2007.

Árið 2008 lækkaði hlutfallið úr 130% niður í 108% vegna afleiðinga bankahrunins á sjóðina. Þá minnkaði hlutfall sjóðanna af VLF niður í svipað hlutfall og árið 2004. Stærð sjóðanna miðað við landsframleiðslu hefur aukist stöðugt síðan á árinu 2008.

Hrein eign lífeyrissjóðanna til útgreiðslu lífeyris nam um 2.390 milljörðum króna í lok ársins 2012 samkvæmt bráðabirgðatölum. Hrein eign sjóðanna jókst um rúma 290 milljarða á árinu, eða um tæp 13%. Þessi vöxtur er sá mesti síðan á árinu 2007, en vöxtur hreinnar eignar á árinu 2011 var tæp 10%.

Landsframleiðslan féll mikið í kjölfar bankahrunsins og því er viðmiðun við hana kannski ekki besti mælikvarðinn á stærð sjóðanna að mati Hagfræðideildarinnar.

Sé hrein eign sjóðanna miðuð við vísitölu neysluverðs fæst dálítið önnur mynd. Hrein eign sjóðanna hefur rúmlega þrefaldast að raunvirði frá árinu 1997, eða um rúm 8% á ári. Raunvöxtur sjóðanna var reyndar 8,3% á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðatölum. Breyting á hreinni eign sjóðanna samkvæmt þessari aðferð hefur verið misjöfn á þessu árabili, allt frá tæplega 23% aukningu á árinu 1999 niður í rúmlega 16% lækkun á árinu 2008. Árin 2008 og 2009 eru þau einu þar sem eignir sjóðanna lækkuðu að raungildi.