Hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði hafa numið 61 milljarði króna það sem af er ári, sem er um 3% af landsframleiðslu á tímabilinu.

Már Guðmunds­son, banka­stjóri Seðlabanka Íslands, seg­ir að án umfangsmikilla gjaldeyriskaupa bankans hefði gengi íslensku krónunnar hækkað verulega. Hann segir að stefnt sé að því að regluleg gjaldeyriskaup haldi áfram í núverandi umfangi svo lengi sem aðstæður breytist ekki umtalsvert. Seðlabankinn mun beita óreglulegum viðskiptum til að draga úr sveiflum í gengi krónunnar.

Undanfarna mánuði hefur Seðlabankinn keypt gjaldeyri verulega umfram það sem hann hefur selt bæði í reglulegum kaupum og óreglulegum viðskiptum og segir Már að þessi gjaldeyrisviðskipti hafi stuðlað að auknum stöðugleika krónunnar.

Gengi krónunnar hefur lítið breyst milli ára. Gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna og minni afborganir erlendra lána innlendra fyrirtækja og sveitarfélaga hafa stutt við gengið. Á móti hefur þróun vöruskiptajafnaðar verið óhagstæð og Seðlabank­inn keypt tals­vert af gjald­eyri á markaði.