Allir stjórnar- og varamenn í stjórn Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi, eru konur en þetta varð ljóst eftir að ný stjórn var kjörin á aðalfundi um miðja síðustu viku. Ný stjórn mun funda eftir páska og skipta þá með sér verkum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Frumtaka.

Andrea Ingimundardóttir, markaðsstjóri hjá Vistor, kemur ný inn í stjórn og tekur sæti Davíðs Ingasonar. Áslaug Guðný Jónsdóttir, Ragnildur Reynisdóttir,Sólveig Björk Einarsdóttir og Þyri E. Þorsteinsdóttir halda áfram í stjórninni milli ára. Varamenn eru þær Dagmar Ýr Sigurjónsdóttir og Guðfinna Kristófersdóttir.

Samtökin fagna fimmtán ára afmæli um þessar mundir og settu af því tilefni saman kynningarmyndbönd sem sýna frá starfsemi þess. Þar er meðal annars rætt við fólkið sem starfar hjá samtökunum og starfsfólk lyfjafyrirtækjanna.

„Þetta ferli er í senn bæði alþjóðlegt og flókið, en algjör forsenda þess að heilbrigðiskerfið þróist fram á við, með aðgengi að bestu fáanlegu lyfjameðferðum hverju sinni,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, í myndinni „Fólkið okkar“ sem sjá má hér að neðan.