Áætlað er að útgáfa ríkisbréfa nemi 50 milljörðum króna að söluvirði á næsta ári en að hrein útgáfa markflokka ríkisbréfa verði neikvæð um 20 milljarða á árinu. Jafnframt er áætlað að staða ríkisvíxla lækki um næstum því þriðjung á árinu. Hrein innlend lántaka ríkissjóðs er áætluð neikvæð upp á 194 milljarða króna á árinu 2016.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs 2016, sem birt var í dag.

Greiða upp Seðlabankabréfið

Í október eru á gjalddaga 70 milljarðar króna í flokknum RIKB 16 1013 og auk þess eru á gjalddaga flokkar ríkisvíxla fyrir um 29 milljarða króna á næsta ári. Fyrir utan þessar reglulegu afborganir stefnir ríkið að því að greiða upp 165 millljarða króna af innlendum skuldum sínum. Ríkið stefnir að því að greiða upp skuldabréf Seðlabanka Íslands fyrir mitt næsta ár, en þar er um að ræða um 90 milljarða króna greiðslu.

Þá er stefnt að því að að greiða 71 milljarða króna inn á skuldabréfaflokkinn RIKH 18 1009. Það eru skuldir sem var stofnað til í tengslum við endurreisn bankakerfisins og eru þær með breytilegum vöxtum. Uppkaupin verða fjármögnuð með 30% sölu á hlut í Landsbankanum, en talið er mikilvægt að draga úr stærð flokksins á næstu árum til að minnka endurfjármögnunarþörf ríkissjóðs á árinu 2018.

Á sama tíma og ríkið greiðir upp samtals 264 milljarða króna af skuldum sínum er áætlað að gefnir verði út um 70 milljarðar króna af ríkisvíxlum og ríkisbréfum. Hrein innlend lántaka ríkisins er því neikvæð um 194 milljarða eins og áður segir.

Í júní eru á gjalddaga 503 milljón dollara eftirstöðvar af 1.000 milljón dollara láni sem var tekið árið 2011. Í áætluninni segir að gjaldeyrisstaða ríkissjóðs sé góð og gefi svigrúm til að greiða upp lánið, en að stefnan sé á að endurfjármagna það á markaði ef lánakjör verða hagstæð.

Annar verðtryggður flokkur fái viðskiptavakt

Samkvæmt venju ætti að gefa út nýjan tveggja ára óverðtryggðan flokk með gjalddaga 2018 á næsta ári. Ekki verður af því, í ljósi þess að tveir mjög stórir flokkar eru á gjalddaga í október 2018 og febrúar 2019. Þess í stað verður selt meira í flokknum RIKB 17 0206.

Hvað verðtryggðu hlið skuldabréfamarkaðarins varðar felast helstu fréttirnar í ársáætluninni í því að stefnt verður að því að hefja almenna sölu á bréfum í flokknum RIKS 30 0701, ásamt því að gera hann að markflokki með viðskiptavakt. Þar með fjölgar þeim verðtryggðu flokkum sem eru með viðskiptavakt, en eins og stendur er RIKS 21 0414 eini verðtryggði flokkurinn sem er þess eðlis. Staða flokksins ásamt áföllnum verðbótum er nú um 73 milljarðar króna að nafnverði. Möguleiki er á frekari stækkun flokksins, að því er fram kemur í áætluninni.

Fyrirkomulag útgáfu ríkisvíxla verður með sama hætti og síðastliðin ár. Ekki er útilokað að víxlar með öðrum tímalengdum en 6 mánuðum verði gefnir út á árinu.