Ólga og vonbrigði ríki meðal sauðfjárbænda í kjölfar ákvörðunar slátursleyfishafa um að lækka afurðaverð að meðaltali um 9,8% fyrir lömb og 33,7 % fyrir annað sauðfé. Áður en niðurstaðan lá fyrir höfðu Landssamtök sauðfjárbænda gefið út sitt viðmiðunarverð sem hljóðaði upp á 12,5% hækkun frá verðinu árið á undan.

Lækkunin er reiðarslag fyrirsauðfjárbændur sem hafa löngum haldið því fram að erfitt sé að lifa á því afurðaverði sem þeim hefur staðið til boða í gegnum tíðina og nú virðast þeir enn sjá fram á erfiðari tíma. Landssamtök sauðfjárbænda hafa tekið saman að tekjutap stéttarinnar í kjölfar lækkunarinnar sé tæplega 600 milljónir króna ef miðað sé við að framleiðsla verði sú sama og í fyrra. Að sögn sambandsins hafði verð á sláturfé til bænda áður lækkað að raungildi um 5,6% á þremur árum en þyrfti að hækka um 5,9% til að halda í við verðlagsþróun.

Sláturleyfishafar skila allir tapi

Norðlenska rökstyður ákvörðun fyrirtækisins um lækkaða verðskrá á heimasíðu sinni, en rökin eru að miklu leyti samhljóða rökstuðningi annarra sláturleyfishafa. Í tilkynningunni kemur fram að afkoma Norðlenska af slátrun og vinnslu sauðfjárafurðahafi verið óviðunandi og verulegt tap hafi myndast vegna þessa á rekstrarárinu 2015. Heildsöluverð á kjöti hafi síðan ekki hækkað í samræmi við aukinn launakostnað vegna slátrunar og vinnslu.

Auk þess segir Norðlenska horfur á útflutningsmörkuðum fyrir kjöt og aukaafurðir neikvæðar um þessar mundir og verðlækkanir yfirvofandi víða. Þá rýri styrking krónunnar verðmætið í krónum talið. Á sama tíma hefur vaxtastig í landinu haldist mjög hátt sem gerir allan birgðakostnað íþyngjandi. Þá bendir fyrirtækið jafnframt á að meðal innkaupsverð Norðlenska á dilkum, svokallað bændaverð, hafi hækkað um rúm 42% frá 2010 til 2015. Meðal innkaupsverð á fullorðnu fé hefur á sama tíma hækkað um tæp 44%. Grundvöllur þessara hækkana undanfarinna ára voru ágætar aðstæður á útflutningsmörkuðum. Nú hafa þær aðstæður breyst og verðskrárbreytingar taki mið af því. Aðrir sláturleyfishafar hafa tekið undir orð Norðlenska og sýnt fram á að allir hafi þeir skilað tapi í kjölfar sauðfjárslátrunar á síðasta ári.

Óafturkræf áhrif á sveitir landsins

Sitt sýnist þó hverjum og Landsamtök sauðfjárbænda hafa nú lýst verðlækkuninni sem gersamlega glórulausri og segir bændur blæða fyrir spádóma sláturleyfishafa. Innanlandssala hafi verið að aukast, vextir farið lækkandi, efnahagshorfur séu góðar og heimsmarkaðsverð á lambakjöti sé á uppleið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.