Ávöxtun eigna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á síðasta var mjög góð, að mati stjórnenda sjóðsins. Nafnávöxtun sjóðsins var 10,4% sem svarar til 6,5% hreinnar raunávöxtunar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar LSR síðustu fimm árin er 4,5%.

Tekjur af fjárfestingarstarfsemi á árinu 2013 voru 46,3 milljarðar króna og heildareignir LSR voru 485 milljarðar króna í árslok 2013, eftir því sem fram kemur á vef lífeyrissjóðsins.

Undanfarin þrjú ár hafa eignir LSR aukist um 134,8 milljarða króna. Það má að stærstum hluta rekja til ávöxtunar sjóðsins því á sama tíma hafa tekjur af fjárfestingum numið 131,4 milljarði króna.

Í árslok 2013 var 55% af eignum sjóðsins í skuldabréfum, þar af 35,2% í skuldabréfum með ríkisábyrgð, 9% í innlendum hlutabréfum, 29,8% í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum, 5,4% í innlánum og 0,9% í öðrum fjárfestingum.

Á árinu 2013 fengu 17.590 sjóðfélagar eða makar þeirra lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum, samtals 29,4 milljarða króna. Að meðaltali greiddu 29.491 sjóðfélagi iðgjald til sjóðsins á árinu, samtals að fjárhæð 21,2 milljarði króna.