Hrein skuldastaða þjóðarbúsins hækkaði á fyrsta ársfjórðungi um ríflega 191 milljarð króna sem skýrist af viðskiptahalla og verðbreytingum, aðallega gengislækkun krónunnar, segir í frétt frá Seðlabanka Íslands. Á fyrsta fjórðungi ársins var halli á viðskiptum við útlönd 66,3 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri Seðlabanka Íslands.

Í frétt bankans kemur fram að viðskiptahallinn hafi numið 32,6 milljörðum króna á sama tíma fyrir ári. Á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs voru vöruviðskipti óhagstæð um 31,6 milljarða króna samanborið við 15,2 milljarða króna halla árið áður. Vöruskiptahallinn hefur aukist vegna mikils innflutnings, einkum fjárfestingar- og rekstrarvara samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.

Seðlabankinn bendir á að hreint fjárinnstreymi mældist 64,7 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins. Nettólántökur erlendis námu 87,9 milljörðum króna sem skýrist aðallega af skuldabréfaútgáfu og skammtímalántökum innlendra banka erlendis. Bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi var 22,1 milljarður króna sem skýrist að stærstum hluta af endurfjárfestum hagnaði í atvinnurekstri hér á landi. Fjárútstreymi vegna erlendra verðbréfakaupa nam 47,4 milljörðum króna og 12 milljörðum króna vegna beinna fjárfestinga erlendis.