*

fimmtudagur, 19. september 2019
Innlent 7. nóvember 2015 13:10

Mikil tækifæri í Krónunni

Jón Björnsson er forstjóri Festi sem rekur m.a. matvöruverslanirnar Krónuna og Nóatún en þær hafa gengið í gegnum miklar breytingar.

Kári Finnsson
Haraldur Guðjónsson

Fyrir um tveimur árum keypti framtakssjóður í rekstri sjóðstýringafélagsins Stefnis, ásamt hópi fjárfesta, hluta af innlendri starfsemi Norvik í gegnum félagið Festi hf. sem varð nýtt móðurfélag fyrirtækjanna. Á meðal þeirra eigna sem Festi tók yfir var Kaupás, sem rekur Krónuna, Nóatún og Kjarval, raftækjaverslunin Elko, íþróttavörubúðin Intersport, vöruhótelið Bakkinn auk fasteignasafns. Þó nokkrar breytingar hafa orðið á fyrirtækjunum frá því að Festi tók yfir starfsemi þeirra, bæði í innviðum þeirra og ytra byrði.

Forstjóri Festi, Jón Björnsson, hefur verið við stjórnvölinn frá upphafi fyrirtækisins en hann á að baki víðtæka reynslu úr heimi smásölunnar. Þegar hann tók við sem forstjóri segist hann hafa þekkt vel til fyrirtækjanna og vissi að í þeim fólust ýmis tækifæri.

Hvað lögðuð þið upp með í upphafi og hvernig hafa áætlanir ykkar gengið eftir?

„Það er að einhverju leyti nokkuð mismunandi eftir fyrirtækjunum. Þetta eru fimm fyrirtæki í smásölu og svo fasteignafélag þar sem helmingurinn í því félagi er í leigu til þriðja aðila. Ef þú tekur smásölueiningarnar fimm þá voru þær allar í mismunandi ásigkomulagi. Þær voru ekkert allar á sama æviskeiði og þurftu ekki sömu áherslubreytingar. Við spurðum okkur í upphafi hvar við sáum mestu umbreytingartækifærin. Þar sáum við tækifæri til vaxtar í Krónunni. Það var greinilega eftirspurn eftir fleiri Krónubúðum. Á sama tíma voru við með ágætis staðsetningar á Nóatúnsverslununum en Nóatún var aðeins búið að tapa sínum sess á matvörumarkaði.

Það er annars vegar eitthvað sem lýtur að neytandanum í þessu öllu saman og hins vegar eitthvað sem lýtur að innviðunum. Við erum að vinna þetta þess vegna eftir tvenns konar plani. Við höfum þess vegna lagað til í allri okkar aðfangakeðju og okkar upplýsingakerfum. Við höfum breytt því hvernig við vinnum með fólk – bæði þjálfun starfsmanna og hvernig við styðjum við okkar stjórnendur. Fyrirtækið var í grunninn mjög gott. Það var fyrirtæki sem var rekið eftir gömlum og góðum gildum. Það hafði hins vegar svo mikil tækifæri. Kannski var það að einhverju leyti tengt áherslum. Fyrirtækið var töluvert stærra. Fyrri eigendur höfðu bæði byggingarvöruhlutann og síðan einhverja erlenda starfsemi. Okkar fókus er bara hrein smásala. Við skilgreinum okkur sem verslunarfyrirtæki. Þótt við eigum fasteignafélag þá eru þær fasteignir sem við einbeitum okkur að verslunartengdar fasteignir. Öll okkar þekking snýst því um að þjónusta okkar viðskiptavini.“

Nánar er rætt við Jón í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Krónan Nóatún Jón Björnsson Festi