Hreinar rekstrartekjur viðskiptabankanna þriggja, Arion Banka, Íslandsbanka og Landsbankans, námu alls 125 milljörðum króna í fyrra. Þetta eru öllu meiri tekjur en sáust árið 2004 um það leyti er útrásarbankakerfið sprakk út. Arion skilaði mestum rekstrartekjum eða 49,6 milljörðum króna en bankinn færir til tekna yfir 21 milljarð vegna dótturfélaga sem eru í sölumeðferð. Þar er um að ræða eignarhluti bankans í Pennanum, Heklu, Þyrpingu og finnska smásölufyrirtækinu Officeday.

Hreinar vaxtatekjur Íslandsbanka námu 45 milljörðum en voru tæpur 31 milljarður hjá Landsbankanum. Þegar gluggað er nánar í rekstrartekjur bankanna kemur í ljós að Íslandsbanki aflar langmestra vaxtatekna, eða 32 milljarða króna samanborið við 14,6 milljarða hjá Landsbankanum (að teknu tilliti til uppfærslu á eignum og skuldum) og 12,1 milljarð hjá Arion. Tvennt skýrir þennan mikla mun. Annars vegar er vaxtamunur Íslandsbanka 4,7% borið saman við 1,7% hjá Arion og 1,4% hjá Landsbankanum. Hins vegar er verðtryggingajöfnuðurinn jákvæður hjá Íslandsbanka (og Landsbanka) en neikvæður hjá Arion. Verðbólgan var 7,5% á síðasta ári sem kemur með jákvæðum hætti inn í uppgjör þeirra fjármálafyrirtækja sem eiga verðtryggðar eignir umfram skuldir líkt og Íslandsbanki.

_____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .