Fyrstu árin eftir hrun fólst rekstrarvandi Íbúðalánasjóðs að miklu leyti í milljarða króna tapi vegna virðisrýrnunar útlána. Tapið var mest 2010 þegar eignir sjóðsins rýrnuðu um 36 milljarða, en á sama tíma voru hreinar vaxtatekjur aðeins 2,5 milljarðar.

Á fyrri hluta þessa árs var vandinn af öðrum toga, en þá jókst virði þeirra útlána og fasteigna sem sjóðurinn átti um 370 milljónir. Hins vegar voru hreinar vaxtatekjur sjóðsins neikvæðar um 1,1 milljarð króna og var það í fyrsta skipti sem það gerist. Heildartapið af rekstri Íbúðalánasjóðs á fyrri hluta ársins nam um 800 milljónum.

Til að sporna við tapi vegna vaxtamunar keypti Íbúðalánasjóður skuldabréf fyrir um 70 milljarða í október af ESÍ, dótturfélagi Seðlabankans. Kaupin hafa jákvæð áhrif á vaxtamun sjóðsins sem nemur um 1,1 milljarði króna á ári, en það jafngildir þó aðeins tapi sjóðsins vegna vaxtamunar á fyrri helmingi þessa árs. Íbúðalánasjóður hefur jafnframt auglýst um 500 fasteignir um land allt til sölu og til stendur að setja leigufélagið Klett í opið söluferli eftir áramót.

Staða sjóðsins hefur verið styrkt

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að síðustu mánuði hafi markvisst verið unnið að því að styrkja stöðu sjóðsins með því að selja fasteignir og fjárfesta því fé í tekjuberandi eignum. Hermann segist ekki geta tjáð sig um afkomu yfirstandandi árs, en hann segist búast við því að rekstrartekjur sjóðsins verði hærri en rekstrargjöld hans á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .