Hagnaður Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. eftir skatta var alls 163,5 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli á níu mánaða tímabilinu var 15,5% og hagnaður á hlut 17 evrur, samanborið við 23 evrur á sama tímabili 2006. Efnahagur Straums er sterkur segir í tilkynningu. Heildareignir námu 6.886,5 milljónum evra 30. september 2007, sem er aukning um 58% frá 31. desember 2006. CAD-hlutfall bankans er 28,7% segir í tilkynningu bankans.

Hreinar vaxtatekjur námu 45,8 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 28,2% frá sama tímabili árið 2006. Hreinar vaxtatekjur á þriðja ársfjórðungi námu 26,3 milljónum evra, sem er 83,5% aukning frá sama fjórðungi 2006. Hreinar þóknunartekjur námu 94,5 milljónum evra á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 60,5% frá sama tímabili árið 2006. Hreinar þóknunartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 23,1 milljón evra, sem er aukning um 10,4% frá sama tímabili í fyrra. Þessi niðurstaða er í samræmi við stefnu bankans um að auka auka hlutfall stöðugra tekna og minnka vægi gengishagnaðar.

Metafkoma var hjá Lánasviði á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður fyrir skatta var 18,9 milljónir evra, sem er aukning um 10,1 milljón evra frá fyrri fjórðungi.

Yfirtökutilboði Straums í allt hlutfé og kauprétti eQ var samþykkt og fer Straumur nú með ríflega 95% hlutafjár og atkvæðisréttar í bankanum. Fjármálaeftirlitið veitti Straumi viðskiptabankaleyfi sem gerir honum heimilt að taka við innlánum en þau námu 1.422 milljónum evra við lok þriðja ársfjórðungs 2007. William Fall kynnti framtíðarsýn bankans í september og þar kom m.a. fram að markmið Straums væri að verða leiðandi fjárfestingabanki í Norður-og Mið-Evrópu.
„Við höfum haldið áfram að auka vaxta- og þóknunartekjur bankans, sem eru um þessar mundir drifkrafturinn í starfsemi bankans. Að auki er efnahagur bankans sterkur og við höfum dregið nokkuð úr áhættuskuldbindingum í hlutabréfum. Óhagstæðar markaðsaðstæður upp á síðkastið hafa haft sín áhrif á afkomuna en við erum fullviss um að ná langtímamarkmiðum okkar og auka verðmæti í þágu hluthafa okkar," segir William Fall forstjóri bankans í tilkynningu.