„Það er ekkert sem rökstyður það að Ísland hafi þá sérstöðu miðað við þessi lönd að eldi komi ekki til greina hér,“ segir Björn Magnússon, fyrrverandi bóndi, í samtali við Fréttablaðið , en í fyrra sótti hann um leyfi til hreindýraeldis hér á landi.

Greint er frá því í Fréttablaðinu að starfshópur umhverfisráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að hreindýraeldi komi ekki til greina hér á landi. Helstu rök hópsins fyrir niðurstöðunni eru sjúkdómahætta og önnur áhrif á villtan stofn hreindýra á Austurlandi.

Björn segir að niðurstaða nefndarinnar komi ekki á óvart enda hafi andstaða við málið verið greinileg frá upphafi. Bendir hann meðal annars á að það hafi verið afþakkað af nefndinni að hann, ásamt Stefáni Hrafni Magnússyni hreindýrabónda á Grænlandi, kæmi fyrir nefndina til að skýra sín sjónarmið.

„Við höfum íhugað að kæra málsmeðferðina, enda sennilega brot á stjórnsýslulögum. En ég veit ekki hvort við nennum að standa í því,“ segir Björn við Fréttablaðið.