Heimilt verður að veiða 1.001 hreindýr í ár samkvæmt ákvörðun umhverfisráðuneytisins en í fyrra var heimilt að veiða 1.272 dýr. Í rökum ráðuneytisins kemur fram að helsta ástæða þess að kvóti minnkar milli ára er að færri dýr fundust við talningu á Fljótsdalsheiði.

Líkt og undanfarin ár er tarfaveiði heimil frá og með 15. júlí til og með 15. september. Veiði á kúm er heimil frá og með 1. ágúst til og með 20. september. Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Í ár verður heimilt að veiða fleiri tarfa en í fyrra en færri kýr. Óheimilt verður að veiða kálfa á komandi veiðitímabili.