Í yfirheyrslum yfir Stefáni Hilmarssyni, löggiltum endurskoðanda og fyrrverandi endurskoðanda Baugs, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag kom fram að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, fól Stefáni að gera gagngera skoðun á bókhaldi og reikningsfærslu Baugs eftir fund Hreins og Davíð Oddssonar úti í London í byrjun árs 2002.

Stefán er ákærður samkvæmt 33. til og með 36. töluliðs ákæru og teljast þau brot varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995, sbr. 2. og 3. tl. 85. gr., sbr. 82. gr., sbr. 43. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 144, 1994 um ársreikninga.

Í kjölfar skoðunar Stefáns skrifaði hann bréf til stjórnar félagsins þar sem hann ræddi um ýmislegt það sem hann taldi ábótavant. Saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, spurði að því hvort Stefán hefði komið á stjórnarfund í Baugi áður en bréfið var skrifað til að gera grein fyrir því. Stefán sagði að niðurstöður hans hefðu verið birtar með tveimur bréfum. Annars vegar með bréfi skrifuðu 21. mars 2002 og síðan öðru skrifuðu 17. maí 2002. Stefán sagði að hafi hann farið á stjórnarfundi í félaginu í tengslum við birtingu bréfanna þá hefði þá eflaust verið bókað í fundagerð en hann kvaðst hafa setið fund þar sem marsskýrsla félagsins var kynnt. Einns hefði hann setið fund í maí þar sem skýrslan hefði verið kynnt. "Ég sat fundi þar sem þessi bréf voru lögð fram," sagði Stefán.

Saksóknari spurði Stefán hvað hefði gerst á þeim fundi sem hann hefði átt með stjórninni, þá seinni fundinum.

Stefán sagðist hafa gert stjórninni grein fyrir því að hann hefði skrifað áðurnefnd tvö bréf sem lægju fyrir fundinum. Hann hefði farið yfir efni bréfsins á fundinum en bréfið hefði verið samið viku fyrir fundinn. Dagsetning á bréfinu hefði verið 17. maí en stjórnarfundurinn hafi verið 23. maí.

Í bréfinu 17. maí kemur fram að hluthafar Baugs hefðu samið um fullnaðaruppgjör á skuldum sínum við Baug hf. með sölu á tilteknum eignum en skjalafrágangi væri ekki lokið. Saksóknari spurði hvað hefði legið að baki.

"Það sem lá þarna fyrir var að Jón Ásgeir, forstjóri Baugs, tjáði mér að til stæði að fjárfestingafélagið Gaumur seldi tilteknar eignir, þar eða að segja, hlutabréf í félagi sem heitir Smáralind til Baugs til að greiða upp viðskiptastöðuna á milli félaganna.

Hins vegar, þegar kemur að því að borga með hlutafé þá er það matskennt í sjálfu sér hvernig á að verðleggja hlutabréfin og vegna þess vafa, sem þótti ríkja á verðmæti hlutafjárins, þá staldraði stjórnarformaðurinn, Hreinn Loftsson, við og sagði, að það vri ekki æskilegt að þetta væri greitt með þessum hætti meðan ekki lægi fyrir verðmat á hlutafénu í Smáralind. Þess vegna gekk þessi greiðsla til baka. Það var fyrirhugað að selja hlutaféð á milli félaganna en af því varð ekki."

Saksóknari spurði að því hvenær ákveðið hefði verið að fara aðra leið. Stefán sagði að það hefði verið fyrir stjórnarfundinn 23. maí. Hann sagði að þegar ljóst væri að skuldin yrði ekki gerð upp með þessum hætti að þá hefði verið gerð sú krafa að gengið yrði frá kröfunni með einhverjum hætti og það hafi verið lagt í hendur forstjóra félagsins að tryggja greiðsluna með öðrum hætti.

Saksóknari spurði því næst Stefán af hverju hann hefði haft svona miklar áhyggjur af þessari stöðu á viðskiptareikningunum? Stefán sagði að það endurspeglaðist í þeim fyrirmælum sem hann hefði fengið frá Hreini Loftssyni. "Það var krafa formannsins um að það yrðu tekin af öll tvímæli með það sem væri í bókhaldi félagsins ef það væri eitthvað sem orkaði tvímælis eða kynni hugsanlega að orka tvímæliðs þá yrði það upphafið og lagað fyrir fundinn."

Saksóknari spurði þá hvort eitthvað orkaði tvímælis.

"Við höfum talið það að hugsanlega, eins og ég bendi á í bréfi frá 17. maí 2002, að þarna séu viðskiptakröfur á milli félagsins og hluthafa þess. Þótt það séu undanþáguatkvæði í 104. greininni þá var það vilji stjórnarinnar að það yrði tekin af allur vafi og túlkað félaginu í hag og kröfurnar gerðar upp."

Saksóknari spurði Stéfán þá að því hvort hann hefði á einhverjum tímapunkti litið svo á að það mætti líta á þessar kröfur sem lánveitingar.

Stefán sagðist hafa gert það í fyrstu. "Þegar maður endurskoðar svona lið, viðskiptareikning til hluthafa, þá kemur það upp í huga mér og ég orðaði það líka þannig í fyrstu bréfum sem fóru frá mér, að þarna væru hugsanlega lánveitingar á ferðinni."