Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hefur sett Hrein Haraldsson í embætti vegamálastjóra til eins árs, frá 1.maí að telja.

Tekur hann við af Jóni Rögnvaldssyni sem verið hefur vegamálastjóri undanfarin fimm ár. Jón er orðinn 69 ára og hefur starfað hjá Vegagerðinni í 43 ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samgöngumálaráðuneytinu.

Hreinn hefur lokið doktorsnámi í jarðfræði frá Háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð, með áherslu á mannvirkjajarðfræði og jarðverkfræði. Hreinn kom til starfa hjá Vegagerðinni árið 1981 og hefur undanfarið gegnt þar starfi framkvæmdastjóra þróunarsviðs.

Í rökstuðningi sínum fyrir ráðningunni bendir ráðherra meðal annars á að í auglýsingu um stöðu vegamálastjóra hafi verið gerðar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:

Háskólamenntun í verkfræði eða sambærileg menntun.Víðtæk reynsla af stjórnunarstörfum og áætlanagerð. Frumkvæði og leiðtogahæfni. Reynsla og hæfileiki til að miðla upplýsingum ásamt hæfni í samskiptum.

Umsækjendur um starf vegamálastjóra voru tíu.

„Eftir ítarlega og málefnalega skoðun á umsóknum og atriðum sem fram komu í viðtölum við umsækjendur, er það mitt mat að Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar sé hæfasti umsækjandinn til þess að gegna stöðu vegamálastjóra,“ segir Kristján.