Breska verslunarkeðjan House of Fraser tilkynnti í gær að hreinn rekstarhagnaður hafi aukist um 9,3% á fyrri helmingi árs, afkomutölurnar eru þær síðustu sem fyrirtækið birtir áður en Baugur tekur yfir fyrirtækið, segir í frétt Dow Jones.

Hreinn rekstrarhagnaður nam 10,6 milljónum punda (1,4 milljörðum króna) á fyrstu sex mánuðum ársins, en var 9,7 milljónir punda (1,28 milljörðum króna) á sama tíma árið 2005.

Tap fyrirtækisins nam 9,5 milljónum punda (1,3 milljörðum króna) á fyrri helmingi árs, en var sjö milljónir punda (926 milljónir króna) á sama tíma í fyrra. En tapið skýrist af kostnaði vegna endurskipulagningar, opnun nýrra verslana og yfirtökukostnaðar, segir í fréttinni.

Framkvæmdarstjóri verslunarinnar, John Coleman, segir að seinni helmingur árs hafi farið vel af stað og að heildarsala hafi aukist um 5,5% á fyrstu tveimur mánuðunum. Coleman segir að árangurinn hafi náðst með því að byggja á markaðsátaki síðasta árs. Verslunin mun byggja á þeim árangri sem náðist fyrir síðustu jól og segir Coleman að HoF sé vel í stakk búið að skila fullnægjandi afkomu fyrir árið í heild sinni, þrátt fyrir aukinn kostnað, segir í fréttinni.

Baugur á sér langa sögu um yfirtökur á breskur smásölufyrirtækjum og hefur Baugur verið orðaður við súkkulaðiverslunina Thorntons, segir í fréttinni.