Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að vandamál tengd rekstri Íslandspósts ohf. (ÍSP), auk ábendinga umboðsmanns Alþingis og úrskurðir sem hafi fallið vegna stjórnsýslu Póst og fjarskiptastofnunar (PFS) sýni að breytinga sé þörf á póstmarkaði. Hún segist taka þær upplýsingar sem fram hafi komið undanfarið alvarlega.

„Mér finnst þetta allt saman sýna fram á að það er mjög erfitt að vera með fyrirtæki í opinberri eigu, sem er að hluta til í samkeppnisrekstri og hluta í einkaréttarstarfsemi. Þetta kristallast allt í því,“ segir Ólöf. „Þess vegna finnst mér þetta svo mikilvægt, jafnvel þó þetta hafi tekið óratíma, að hreinsa þetta til,“ bætir hún við. Ólöf hyggst leggja fram frumvarp sem miðar að því að afnema einkaleyfi Íslandspósts á dreifingu bréfa undir 50 g næsta haust.

Erfitt að fá að skoða bókhaldið

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur lýst yfir miklum áhyggjum af rekstri ÍSP og segist hafa átt erfitt með að fá afhentar fjárhagsupplýsingar um félagið. Vigdís segir að hún hafi mætt litlum vilja af hálfu stjórnenda ÍSP og PFS til að varpa nánara ljósi á ýmis atriði í rekstri þess fyrrnefnda, til dæmis hver sé uppruni þess fjármagns sem hafi verið notaður til að kaupa hlutabréf.

Þá hafa Ríkisendurskoðandi, PFS og Íslandspóstur öll hafnað því að veita Viðskiptablaðinu upplýsingar um bókhald félagsins, sem geti skýrt þessi atriði. Íslandspósti ber lagaskylda til að halda upplýsingunum til haga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .