Í kjölfar misheppnaðrar valdaránstilraunar hluta tyrkneska hersins um helgina hafa um 8.000 opinberir starfsmenn verið reknir úr starfi og þúsundir handteknir. Nú hafa hreinsanirnar náð til lögreglumanna, en lögreglan var fremst í röð þeirra sem stöðvuðu valdaránstilraunina með handtökur á hermönnum.

Að minnsta kosti 2.745 dómarar og saksóknarar handteknir

Einnig hafa yfirheyrslur hafist á meira en 20 hershöfðingjum, þar á meðal þeim sem taldir eru hafa staðið á bakvið valdaránstilraunina sem kostaði að minnsta kosti 312 manns lífið. Þar af voru 145 almennir borgarar og 104 stuðningsmenn valdaránsins samkvæmt nýjust tölum frá tyrkneskum yfirvöldum.

Hafa 30 héraðsstjórar, sem er meira en þriðjungur af heildinni, einnig verið reknir. Alþjóðasamfélagið studdi Erdogan gegn hernum en nú hafa komið fram áhyggjur af því að valdaránið sé notað sem afsökun til víðtækra hreinsana á andstæðingum forsetans.

Að minnsta kosti 2.745 dómarar og saksóknarar hafa verið handteknir samkvæmt tyrknuskum fjölmiðlum.