Hreinsitækni ehf hefur keypt allt hlutafé í Snók þjónustu ehf. Seljendur eru Snókur ehf og Snókur eignarhaldsfélag ehf. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Með kaupunum breikkar Hreinsitækni þjónustuframboð sitt og getur nú boðið heildstæðar lausnir fyrir orkusækinn iðnað á Íslandi. Meðal viðskiptavina Snóks þjónustu eru meðal annars Elkem á Grundartanga og Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Starfsemin fellur vel að starfsemi Hreinsitækni sem þjónustar meðal annars álver Alcoa á Reyðarfirði og kísilver PCC á Bakka, að því er kemur fram í tilkynningu.

Þjónusta við orkusækinn iðnað kalli á sérhæft og öflugt starfsfólk og miklar fjárfestingar í sérhæfðum búnaði. Með þessum kaupum skipi Hreinsitækni sér sess meðal öflugustu aðila á þessu sviði með sérhæft starfslið og öflugan tækjakost til að sinna fjölbreyttum verkefnum.

Björgvin Jón Bjarnason, framkvæmdastjóri Hreinsitækni:

„Við þessi kaup fjölgar í Hreinsitækni-fjölskyldunni og möguleikar okkar til að sinna stórum og kröfuhörðum markaði fyrirtækja í orkufrekum iðnaði aukast. Starfsmönnum fjölgar úr 70 í 120 og sérþekking á ferlum greinarinnar vex. Í sameiningu verða félögin enn betur í stakk búið til að sinna sérhæfðum verkefnum innan orkusækins iðnaðar, ásamt því að vera í fararbroddi varðandi umhverfismál í greininni."

Kristmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Snóks þjónustu:

„Við höfum á síðustu árum byggt upp öflugt og gott fyrirtæki sem hefur þjónustað orkusækinn iðnað og lagt ríka áherslu á gæða- öryggis og umhverfismál ásamt góðri og hagkvæmri þjónustu fyrir viðskiptavinina. Það hefur verið gefandi að vinna náið með fjölskyldunni og öllu því góða starfsfólki sem er lykillinn að því að vel hefur tekist til. Ég vil þakka starfsfólkinu fyrir samstarfið og vel unnin störf og viðskiptavinunum fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt og óska nýjum eigendum alls góðs."