Pratik Kumar kom til Íslands árið 1999 – þá 22 ára gamall – frá heimalandinu, Indlandi, sem skiptinemi hjá hugbúnaðarfyrirtækinu OZ. Hann var að klára háskólanám í rafmagnsverkfræði, en vissi lítið sem ekkert um Ísland. Gríðarleg eftirspurn var eftir fólki með verkfræðimenntun og tölvuþekkingu á þeim tíma.

„Ég kynnti mér landið sjálft aðeins, en það sem dró mig hingað var OZ. Lítið, tæplega 100 manna fyrirtæki í framvarðarlínu tækniþróunar að gera frábæra hluti. Ég ákvað að ég vildi frekar vera hluti af einhverju slíku en að týnast í þvögunni hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki.“ Upphaflega sá Pratik fyrir sér að fara til Íslands og til OZ í 6-12 mánuði og sjá svo til hvert hann vildi fara næst. „Um leið og ég kom varð ekki aftur snúið. Ég féll fyrir bæði landi og þjóð.“

Eitt af því sem kom Pratik hvað mest á óvart við Ísland og Íslendinga, og heillaði hann á sama tíma hvað mest, er hreinskilnin. „Þetta kom svolítið flatt upp á mig. Aðrar þjóðir eiga það til að forðast það að segja allan sannleikann, oft af illri nauðsyn. Menningin er víða önnur og flóknari og maður þarf að vera var um sig.“

Ísland hafi hins vegar verið alger andstaða við það sem hann hafi átt að venjast. „Hérna talar fólk bara hreint út. Ég upplifi það svolítið þannig að ef það komist upp að þú hafir logið hérna þá sé úti um þig. Það muni fylgja þér það sem eftir er. Það þýðir ekkert að ljúga eða stela hérna því það þekkjast allir.“

Þetta sé mjög verðmætt innan fyrirtækja sem dæmi, þar sem fólk einfaldlega gangist við mistökum frekar en að reyna að hylma yfir þau. Á móti sé fólki sýndur skilningur af yfirmönnum og samstarfsmönnum komi það hreint fram.

Fór til Kaupþings hálfu ári fyrir hrun
Pratik vann hjá OZ í eitt og hálft ár, en þá lagði fyrirtækið upp laupana og hann fór til Nýherja, sem í dag heitir Origo. „Mér var boðin vinna á nokkrum stöðum, en mér leist best á vinnustaðamenninguna hjá Nýherja. Ég naut starfsins þar, andrúmsloftið var mjög gott og ég lærði mikið á því.“

Eftir sex ár hjá Nýherja fór Pratik til Kaupþings á vormánuðum 2008. „Mér fannst ég þurfa reynslu af bankastarfsemi. Hálfu ári seinna hrundi bankinn og varð að Nýja Kaupþingi og síðar Arion banka. Ég get ekki sagt að þetta hafi verið þægilegir tímar.“

Nánar er rætt við Pratik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .